Félag íslenskra barnalækna

Skýrsla stjórnar árið 1999.

 

Aðalfundur.

Síðasti aðalfundur var haldinn 26. mars 1998. Aðalfundarstörf voru með hefðbundnum hætti, gerð var grein fyrir störfum félagsins árið á undan og reikningar kynntir og samþykktir. Samþykkt var tillaga um óbreytt árgjald kr. 2500. Í framhaldi af skýrslu stjórnar urðu umræður um ýmis málefni sem tengjast börnum og barnalækningum hér á landi, norrænt samstarf o.fl.

Almennt félagsstarf og fræðslustarfsemi.

Fræðsludagur barnalækna í samvinnu við Glaxo-Wellcome var haldinn 9. maí 1998 á Grand Hótel í Reykjavík. Í undirbúningsnefnd voru Steingerður Sigurbjörnsdóttir, Þröstur Laxdal og Viðar Eðvarðsson. Erlendur gestur fundarins var dr. Heidi Feldman, barnalæknir og prófessor frá Pittsburgh, og flutti hún tvo fyrirlestra, um tengsl eyrnabólgu og málþroska og um þróun tals hjá börnum sem verða fyrir taugaskaða í eða eftir fæðingu. Aðrir fyrirlesarar voru Gunnlaugur Sigfússon sem talaði um hjartaómun og greiningu hjartasjúkdóma á meðgöngu, Pétur Lúðvígsson um sjúkdóma í úttaugum og vöðvum, Úlfur Agnarsson um Helicobacter pylori, Árni V. Þórsson um hefðbundna og óhefðbundna meðferð með vaxtarhormóni og Sigurður Rúnar Sæmundsson barnatannlæknir ræddi um afbrigðilegan vöxt tanna í börnum með ýmis meðfædd heilkenni. Fundurinn tókst vel í alla staði og var vel sóttur, m.a. komu margir háls-, nef- og eyrnalæknar. Þetta er í fyrsta skipti sem fræðslufundur er haldinn í samvinnu við GW og er áætlað að viðhalda þessu samstarfi og stefnt að öðrum fundi í haust.

Einn fræðslufundur var haldinn á haustdögum. Var hann á Hótel Holti 12. nóvember 1998 og þar talaði Erla Kristjánsdóttir, lektor og framkvæmdastjóri kennslusviðs Kennaraháskóla Íslands, um flutning erinda og fyrirlestra. Fundinn sóttu 15 félagar FÍBL.

Ráðstefna um ung- og smábarnavernd var haldin á Hótel Loftleiðum 18. nóvember 1998 á vegum barnadeildar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Ýmsir áhugaverðir fyrirlestrar voru haldnir, ráðstefnan vel sótt og framkvæmd hennar og umgjörð til sóma. Af hálfu barnalækna töluðu Sigurveig Sigurðardóttir, Sigurður Þorgrímsson, Katrín Davíðsdóttir, Ólafur Gísli Jónsson og Úlfur Agnarsson.

Fræðsluvika læknafélaganna var að venju haldin í janúar. FÍBL skipulagði fund 19. janúar um bráðameðferð hjá börnum þar sem fyrirlesarar voru Hákon Hákonarson sem talaði um öndunarbilun, Pétur Lúðvígsson um krampa, Curtis Snook um eitranir og Þórður Þórkelsson um endurlífgun. Fundurinn var fjölsóttur og þótti heppnast vel. Fleiri barnalæknar voru fyrirlesarar eða fundarstjórar á öðrum fundum og málþingum þessarar fræðsluviku.

Almennur félagsfundur var haldinn á Hótel Holti 24. mars s.l. um nýjan barnaspítala. Tilefni fundarins var bréf barnalæknanna Ólafs Gísla Jónssonar, Kristleifs Kristjánssonar og Hákonar Hákonarsonar til Magnúsar Péturssonar, forstjóra Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur, um þetta málefni og svarbréf til Magnúsar undirritað af öllum sérfræðingum Barnaspítala Hringsins. Tilgangur fundarins var að kynna öðrum félagsmönnum þau sjónarmið sem fram koma í þessum bréfum og fá fram umræður um efnið. Framsögumenn voru Ólafur Gísli Jónsson og Hróðmar Helgason og síðan urðu líflegar og opinskáar umræður þar sem margir tóku til máls. Á fundinn komu 30 barnalæknar sem í lok fundar samþykktu eftirfarandi ályktun samhljóða: ,,Fundur í Félagi íslenskra barnalækna, haldinn 24. mars 1999, lýsir yfir stuðningi við fyrirhugaða byggingu barnaspítala á Landspítalalóð. Félagið hvetur stjórnvöld til að fylgja áður samþykktri áætlun um byggingu barnaspítalans. Jafnframt leggur fundurinn áherslu á að stjórnvöld hugi að bættri og aukinni þjónustu við börn og unglinga á öllum sviðum barnalækninga og barnageðlækninga". Ályktunin var send Magnúsi Péturssyni, Ingibjörgu Pálmadóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, yfirlæknum barnadeildanna þriggja, yfirlækni Barna- og unglingageðdeildar Landspítala, formanni barnageðlæknafélagsins og formanni Umhyggju. Einnig var ályktunin send fjölmiðlum til kynningar.

Segja má að hefð hafi skapast fyrir að halda Barnalæknadaginn árlega á útmánuðum og verður hann í ár haldinn í 4. skipti. Í undirbúningsnefnd hafa verið Sveinn Kjartansson, Kristleifur Kristjánsson og Þórður Þórkelsson og hefur náðst góð samvinna við Astra Ísland um framkvæmdina. Í ár ákvað stjórnin að halda aðalfund í tengslum við barnalæknadaginn og er því hér með komið á framfæri sem hugmynd að svo verði áfram, m.a. til að auka líkur á að kollegar okkar frá Akureyri geti sótt aðalfund félagsins.

Störf stjórnar.

Haldnir voru stjórnarfundir sem næst mánaðarlega á starfsárinu nema hlé var gert yfir sumartímann. Ýmis mál voru tekin til afgreiðslu eftir því sem tilefni gafst til eða sem var beint til stjórnar og eru þau flest rakin í þessari skýrslu.

Óformlega hafa verið myndaðir vinnuhópar um ýmis málefni til að aðstoða og starfa með stjórn félagsins. Hafa barnalæknar verið beðnir að taka að sér að vera í þessum hópum eftir kunnáttu og áhugasviði. Fleiri málaflokka gæti þurft að fjalla um og eru ábendingar þar að lútandi vel þegnar. Á vegum félagsins hafa eftirtaldir hópar starfað:

1) Samningar við TR: Ólafur Gísli Jónsson, Steingerður Sigurbjörnsdóttir og Guðmundur Ásgeirsson.

2) Hjálmanotkun og reiðhjólaslys: Sævar Halldórsson, Friðrik Sigurbergsson og Ólafur Gísli Jónsson.

3) Barnalæknadagur (í samvinnu við Astra Ísland): Sveinn Kjartansson, Kristleifur Kristjánsson og Þórður Þórkelsson.

4) Fræðsludagur barnalækna (í samvinnu við Glaxo Wellcome): Steingerður Sigurbjörnsdóttir, Þröstur Laxdal og Viðar Eðvarðsson.

5) Norrænt samstarf: Sveinn Kjartansson og Katrín Davíðsdóttir.

6) Skólalækningar: Steingerður Sigurbjörnsdóttir, Katrín Davíðsdóttir og Pétur Lúðvígsson.

7) Nefnd um framhaldsnám í barnalækningum á Íslandi: Þórður Þórkelsson, Gunnlaugur Sigfússon og Sigurður Kristjánsson.

8) Fulltrúi FÍBL í fagráði Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna: Ólafur Gísli Jónsson.

9) Svefnstaða ungbarna m.t.t. hættu á vöggudauða: Þórður Þórkelsson, Katrín Davíðsdóttir og Sigurður Þorgrímsson.

10) Þórður Þórkelsson situr í fagráði Læknafélags Íslands. Hann hefur tekið að sér að hafa umsjón með gerð klínískra leiðbeininga um valin efni í barnalækningum fyrir hönd FÍBL.

Að auki hefur Þórður Þórkelsson haft veg og vanda af hönnun og uppsetningu vefsíðu félagsins. Tilgangur síðunnar er m.a. að vera vettvangur fræðslu, upplýsinga og skoðanaskipta auk þess að tengjast öðrum síðum af svipuðum toga.

Ólafur Gísli Jósson var í apríl á síðasta ári skipaður formaður verkefnisstjórnar um slysavarnir barna og unglinga. Um er að ræða átaksverkefni til 3 ára, sem ríkisstjórnin ákvað að hefja samkvæmt tillögu heilbrigðisráðherra. Verkefnisstjórnin er skipuð fulltrúum 6 ráðuneyta ásamt fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og starfar á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Verkefni þetta er afrakstur samvinnu stjórnar FÍBL og umboðsmanns barna og funda þessara aðila með heilbrigðisráðherra um málefnið.

Norrænt samstarf.

Sveinn Kjartansson er nú varaformaður Nordisk Pediatrisk Forening (NPF) og tekur hugsanlega við formannsembætti eftir 2 ár. Hefur hann sótt fundi NPF sem slíkur og á vegum FÍBL en auk hans er Katrín Davíðsdóttir þátttakandi í norrænu samstarfi fyrir hönd félagsins. Þing NPF eru haldin á 3 ára fresti til skiptis á Norðurlöndunum fimm. Stjórn FÍBL hefur samþykkt að þing NPF árið 2003 verði haldið á Íslandi en þá verður komið aftur að okkur að sjá um þingið. Fyrri þing NPF hér á landi voru 1973 og 1988. Ljóst er að þetta kallar á talsverða undirbúningsvinnu og er hér með skorað á félagsmenn að leggja sitt að mörkum ef eftir því er leitað.

Kjaramál.

Eins og fram kemur að ofan hafa Ólafur Gísli Jónsson, Steingerður Sigurbjörnsdóttir og Guðmundur Ásgeirsson verið í starfshópi FÍBL vegna samninga við TR. Á síðasta ári varð sú breyting að samninganefnd Læknafélags Reykjavíkur (LR) samdi við TR fyrir hönd hvers sérgreinarfélags fyrir sig og voru fulltrúar frá hverju félagi kallaðir á samningafundi. Samningur við barnalækna var undirritaður 14. mars 1998. Í samningnum eru nokkur nýmæli og er um hann fjallað í skýrslu stjórnar frá síðasta ári. Í samræmi við samninginn var formaður boðaður á fund með samninganefnd TR og fulltrúum LR vegna endurskoðunar heildareiningafjölda barnalækna. Með leiðréttingum var heildarkvóti barnalækna fyrir síðasta ár 455.273,2 einingar. Hins vegar stefndi í að einingar barnalækna á árinu yrðu alls 478.779,8 eða 5,2% umfram kvóta og kæmi þetta sem skerðing í marsmánuði 1999 að óbreyttu. Af hálfu FÍBL var vísað í aukin umsvif Barnalæknaþjónustunar ehf. í Domus Medica sem skýringu á því að heildareiningafjöldi færi fram úr áætlun. Var á þetta fallist af formanni samninganefndar TR og niðurstaða fundarins sú að heildareiningar barnalækna hækka um þessi 5,2% og verður því ekki um skerðingu að ræða að sinni.

Kjarasamningur sjúkrahúslækna, sem var undirritaður 1. desember 1997, hefur verið umdeildur. Helsta ágreiningsmálið hefur verið röðun sérfræðinga í flokka. Félag íslenskra barnalækna á ekki beina aðild að þessari samningagerð og því ekki fjallað frekar um hana hér, en barnalæknar hafa átt fulltrúa í samninganefndum LÍ og LR.

Niðurlag.

Segja má að starfsemi félagsins hafi verið með nokkuð venjubundnum hætti á starfsárinu. Stjórnin hefur haft að leiðarljósi að halda einingu meðal barnalækna þótt skiptar skoðanir félagsmanna hafi verið um sum málefni. Þá hefur stjórnin starfað í samræmi við lög félagsins um að barnalæknar láti sig varða sem flest málefni íslenskra barna og reynt að sjá til þess að við séum umsagnaraðilar þegar fjallað er um þessi málefni af opinberum aðilum. Nauðsynlegt er að halda vöku sinni hvað þetta varðar og kappkosta að halda góðu sambandi við heilbrigðisráðherra á hverjum tíma og ráðuneyti hans, landlæknisembættið, Alþingi, sveitastjórnir, félagasamtök og fleiri aðila. Þótt oft virðist lítill árangur af fundum og bréfaskriftum, virðast nýleg dæmi sýna að kemst þótt hægt fari. Hlustað er á skoðanir barnalækna ef þær eru vel mótaðar og settar fram af festu.

Þróun undanfarinna ára virðist vera í þá átt að umsvif Félags íslenskra barnalækna aukist. Félagið þarf áfram að vera vettvangur fræðslu og stuðla að sem mestum samskiptum félagsmanna. Einnig er nauðsynlegt að gæta faglegra hagsmuna barnalækna á sem víðustum grundvelli. Hvort sem okkur líkar betur eða verr virðist félagið að auki vegna breyttra aðstæðna þurfa í vaxandi mæli að gæta hagsmuna barnalækna í samningum um kaup og kjör.

Með þessari skýrslu lýkur 3 ára formennsku undirritaðs. Þessi tími hefur verið ánægjulegur og lærdómsríkur. Einna mest hefur komið mér á óvart hve auðvelt hefur verið að fá félagsmenn til að taka að sér ýmis verkefni og gefa sér tíma í það þrátt fyrir annir og aðrar skyldur. Samvinna af þessu tagi og að virkja krafta sem flestra er að mínu mati ein helsta forsenda velgengni félagsins. Undirritaður þakkar Steingerði og Þórði samstarfið í stjórninni undanfarin 2 ár og óskar nýrri stjórn og félagsmönnum öllum velfarnaðar.

f. h. stjórnar Félags íslenskra barnalækna

Ólafur Gísli Jónsson, formaður.


Stjórn | Félagatal | Læknar erlendis | Lög félagsins | Skýrslur stjórnar
Fréttabréf Ráðstefnur | Fræðsluefni | Tímarit | Tenglar