Félag íslenskra barnalækna

Skýrsla stjórnar árið 1998.

 

Aðalfundur.

Síðasti aðalfundur var haldinn 20. mars 1997. Aðalfundarstörf voru með hefðbundnum hætti, gerð var grein fyrir störfum félagsins árið á undan og reikningar kynntir og samþykktir. Samkvæmt félagslögum gengu Katrín Davíðsdóttir og Þórólfur Guðnason úr stjórn en í þeirra stað voru kosin Steingerður Sigurbjörnsdóttir ritari og Þórður Þórkelsson gjaldkeri. Á fundinum voru samþykktar breytingar á lögum félagsins, tvær lagfæringar á orðalagi en sú þriðja um að félagið skuli auk fyrri markmiða leitast við að vera málsvari íslenskra barna, bæði heilbrigðra og sjúkra, á sem víðustum grundvelli.

Almennt félagsstarf og fræðslustarfsemi.

Fjórir almennir félagsfundir voru haldnir á árinu. Sá fyrsti var haldinn á Sjúkrahúsi Reykjavíkur 29. september 1997 og var fundarefnið samningar við Tryggingastofnun ríkisins og hugsanleg uppsögn samninga. Kristján Guðmundsson, HNE læknir, kom á fundinn og reifaði hugmyndir þeirra og baráttuaðferðir. Á eftir voru umræður um að barnalæknar myndu segja sig af samningi TR og LR. Þar sem aðeins komu 12 barnalæknar á fundinn var ákveðið að bíða með að taka ákvörðun. Framhaldsfundur var síðan haldinn á Greiningarstöð ríkisins 23. október um sama málefni. Svipaður fjöldi félagsmanna kom á þann fund. Meirihluti fundarmanna var á því að segja sig af samningi við TR. Flestir hættu þó við þau áform fljótlega þegar ljóst var að ekki var samstaða meðal þeirra barnalækna sem vinna skv. samningnum um þessa aðgerð. Fór að lokum svo að fáir barnalæknar sendu inn uppsagnarbréf og hjá einungis fjórum tók uppsögn gildi, þar af aðeins hjá tveimur sem stunda reglulegan stofurekstur. Eftir að samið var við TR hófu þessir tveir barnalæknar aftur að starfa samkvæmt nýjum samningi. Félagsfundur var haldinn 15. mars til að kynna efni nýs samnings við TR, sem undirritaður var daginn áður. Fjórtán barnalæknar komu á fundinn og lýsti mikill meirihluti þeirra yfir stuðningi við þann samning sem gerður var.

Félagsfundur var haldinn 27. janúar 1998 í Greiningarstöð ríkisins um málefni ungbarnaverndar. Tilefni fundarins var hugmyndir heilsugæslulækna á Akureyri um breytta verkaskiptingu milli heimilislækna og barnalækna í ungbarnaeftirliti þar og nýtt fyrirkomulag. Var fundurinn haldinn að ósk Magnúsar Stefánssonar, yfirlæknis. Framsögumenn á fundinum voru Gestur Pálsson, Katrín Davíðsdóttir og Magnús Stefánsson. Gestur kynnti leiðbeiningar sem gefnar hafa verið út á vegum landlæknisembættis um framkvæmd ungbarnaeftirlits og nýorðnar breytingar á þeim. Eitt helsta vandamálið í seinni tíð hefur verið skortur á úrræðum fyrir börn sem greinast í ungbarnaeftirliti með væg þroskafrávik eða þegar spurning er um slíkt. Katrín lýsti hugmyndum um stofnun fagteymis við barnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur til að sinna þessum hópi. Magnús lýsti þróun og stöðu mála í ungbarnavernd á Akureyri. Rædd voru ýmis sjónarmið í sambandi við ungbarnavernd og málinu síðan vísað til stjórnar.

Fræðsluvika læknafélaganna var að venju í janúar. FÍBL skipulagði fund 23. janúar 1998 um öndunarfærasjúkdóma í börnum. Þar talaði Þórólfur Guðnason um ný viðhorf í meðferð á eyrnabólgum, Friðrik Sigurbergsson um RS bronchiolitis, Michael Clausen um asthma í ungum börnum og Sigurður Kristjánsson um ofnæmisvandamál. Fundurinn var fjölsóttur og þótti heppnast vel. Fleiri barnalæknar voru fyrirlesarar eða fundarstjórar á öðrum fundum og málþingum þessarar fræðsluviku.

Barnalæknadagurinn, sá þriðji í röðinni, var haldinn á Hótel Loftleiðum 28. febrúar 1998. Undirbúningsnefnd skipuðu eins og í fyrra Kristleifur Kristjánsson, Þórður Þórkelsson og Sveinn Kjartansson sem var formaður. Á fundinum kynnti Ásgeir Haraldsson, prófessor, teikningar að nýjum barnaspítala. Því næst lýstu Kári Stefánsson og Kristleifur Kristjánsson starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar og verkefnum sem farið er að vinna að á vegum fyrirtækisins. Eftir hádegi voru kynnt rannsóknaverkfni og að lokum ræddu Sigurður Kristjánsson og sænskur gestafyrirlesari, Göran Wennergren frá Gautaborg, um asthma. Um kvöldið var samkoma í Viðey fyrir barnalækna og maka þeirra. ASTRA Ísland var styrktaraðili barnalæknadagsins. Undirbúningsnefndin undir forystu Sveins Kjartanssonar vann gott starf og á þakkir skyldar.

Störf stjórnar.

Níu formlegir stjórnarfundir voru haldnir á árinu. Í samræmi við lög félagsins hefur stjórnin reynt að láta málefni barna á Íslandi til sín taka á sem víðustum grundvelli. Má þar nefna að sendar voru til Alþingis umsagnir um nokkrar þingsályktunartillögur sem varða börn. Eftir að send var ábending til Alþingis hefur sú breyting orðið að þingið er farið að óska eftir áliti Félags íslenskra barnalækna, a.m.k. í sumum tilvikum, þegar til umfjöllunar eru á Alþingi mál er varða börn. Forystumönnum Landssamtakanna Heimilis og skóla boðið á fund með stjórn FÍBL í október 1997 þar sem rædd var hugsanleg samvinna. Vonir standa til að þessi samvinna geti þróast áfram.
Óformlega hafa verið myndaðir vinnuhópar um ýmis málefni til að aðstoða og starfa með stjórn félagsins. Hafa barnalæknar verið beðnir að taka að sér að vera í þessum hópum eftir kunnáttu og áhugasviði. Fleiri málaflokka þarf að taka fyrir og lýst er eftir áhugasömum félagsmönnum. Á vegum félagsins hafa eftirtaldir hópar starfað:

1) Samningar við TR: Ólafur Gísli Jónsson, Steingerður Sigurbjörnsdóttir, Guðmundur Ásgeirsson.
2) Útgáfa bæklings í samvinnu við Umboðsmann barna um ofbeldi í sjónvarpi: Ingibjörg Georgsdóttir, Katrín Davíðsdóttir, Jón R. Kristinsson, Ólafur Gísli Jónsson. Bæklingur þessi kom út í mars og var kynntur á fréttamannafundi 10. mars s.l.
3) Hjálmanotkun og reiðhjólaslys: Sævar Halldórsson, Friðrik Sigurbergsson og Ólafur Gísli Jónsson. Fundir með Umferðarráði og fleiri aðilum.
4) Barnalæknadagur: Sveinn Kjartansson, Kristleifur Kristjánsson, Þórður Þórkelsson. Sjá að ofan.
5) Fræðsludagur barnalækna (í samvinnu við Glaxo Wellcome), verður haldinn 9. maí n.k: Steingerður Sigurbjörnsdóttir, Þröstur Laxdal og Viðar Eðvarðsson.
6) Norrænt samstarf: Sveinn Kjartansson og Katrín Davíðsdóttir.
7) Skólalækningar: Steingerður Sigurbjörnsdóttir, Katrín Davíðsdóttir, Pétur Lúðvígsson. Nefnd á vegum landlæknisembættis undir forsæti Vilborgar Ingólfsdóttur hefur starfað og ofangreindir þrír barnalæknar verið þar þátttakendur ásamt m.a. heilsugæslulæknum og hjúkrunarfræðingum í heilsugæslu og skólum.
8) Nefnd um framhaldsnám í barnalækningum á Íslandi: Þórður Þórkelsson, Gunnlaugur Sigfússon og Sigurður Kristjánsson.
9) Fulltrúi FÍBL í fagráði Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna: Ólafur Gísli Jónsson.
10) Svefnstaða ungbarna m.t.t. hættu á vöggudauða: Þórður Þórkelsson, Katrín Davíðsdóttir, Sigurður Þorgrímsson.

Eins og oft áður hefur mikill tími farið í málefni ungbarnaverndar og hefur stjórnin haft náið samráð við Katrínu Davíðsdóttur, sem varð yfirlæknir barnadeildar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur á síðasta ári. Við stefnumótun í þessum málaflokki hefur fyrst og fremst verið tekið mið af fyrri umræðum og ályktunum félagsins og niðurstöðum framtíðarnefndar, sem starfaði fyrir nokkrum árum undir forystu Gunnars Biering. Stjórnin hefur þannig talað fyrir því að barnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur verði miðstöð ung- og smábarnaverndar á Íslandi. Þar fari áfram fram hefðbundin ungbarnavernd, hugsanlega í tengslum við heilsugæslustöð í þessum borgarhluta, en auk þess þjóni barnalæknar deildarinnar öðrum heilsugæslustöðvum í Reykjavík og nágrenni eins og verið hefur. Að auki verði hægt að vísa til deildarinnar börnum með flókin vandamál, t.d. þegar grunur er um frávik í þroska eða hegðun, og verði í þessu skyni myndað fagteymi eins og Katrín Davíðsdóttir, yfirlæknir deildarinnar hefur lagt til. Deildin sinni fjölskyldum sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður eða þar sem foreldrar eiga í vímuefnavanda, eða þegar líkur eru á að margar heilbrigðisstéttir þurfi að koma að málum. Barnadeildin hafi yfirumsjón með útgáfu fræðsluefnis, menntun og þjálfun starfsfólks, setji gæðastaðla og sjái um samræmingu ungbarnaverndar milli heilsugæslustöðva, og sé virkur þátttakandi í rannsóknum. Mikilvægt að barnadeildin verði sjálfstæð eining með sérstaka fjárveitingu, en heppilegt gæti reynst að hún tengdist Barnaspítala Hringsins, einkum m.t.t. rannsókna og til að auka líkur á góðri mönnun. Síðast voru þessar hugmyndir reifaðar á fundi stjórnar með Ingibjörgu Pálmadóttur heilbrigðisráðherra 18. mars s.l.

Á sama fundi voru ráðherra einnig kynnt áhersluatriði FÍBL í skólalækningum. Sérstaklega var bent á að menntun og starfsreynsla barnalækna setji þá í lykilaðstöðu til að geta haft yfirsýn yfir og tekið á þeim margvíslegu og flóknu vandamálum sem tengst geta skólagöngu barna og unglinga. Var þeirri skoðun lýst að heilbrigðiseftirlit í skólum ætti að vera eðlilegt framhald af ung- og smábarnavernd og upplýsingaflæði þarna á milli snurðulaust. Nefndur var sá möguleiki að endurvekja embætti skólayfirlæknis, sem fyrst og fremst sæi um skipulagningu og samræmingu heilbrigðisþjónustu í skólum og að þróa úrræði fyrir nemendur sem þurfa á hjálp að halda. Í framhaldi af þessu var einnig rætt um geðvernd barna og unglinga og vandamál Barna- og unglingageðdeildar Landspítala og lýst yfir áhyggjum af stöðu þeirra mála.

Á þessum sama fundi með ráðherra var minnst á auknar álögur á barnafólk, hækkun lyfjakostnaðar, breyttar reglur um barnabætur og fleiri atriði sem hafa leitt til aukinna útgjalda barnafjölskyldna. Þeirri hugmynd komið á framfæri að ekki sé óeðlilegt að svipaðar reglur gildi um greiðsluþátttöku TR fyrir börn eins og nú gilda um ellilífeyrisþega eða öryrkja.

 Norrænt samstarf.

Sveinn Kjartansson og Katrín Davíðsdóttir hafa verið fulltrúar félagsins á fundum Nordisk Pediatrisk Forening (NPF). Þing NPF var haldið í Þrándheimi á síðasta ári og fór þangað allstór hópur íslenskra barnalækna og unglækna. Sveinn Kjartansson var á fundinum kosinn varaformaður NPF og tekur hugsanlega við formannsembætti eftir 3 ár. Stefnt er að því að halda þing NPF árið 2003 á Íslandi.

 Kjaramál.

Fram að þessu hefur FÍBL ekki komið að kjaramálum félagsmanna eða tekið þátt í viðræðum og gerð kjarasamninga. Kjarasamningur sjúkrahúslækna frá desember s.l. var þannig alfarið í höndum samninganefnda LÍ og LR, þótt barnalæknar ættu þar fulltrúa. Á þessu varð fremur snögg breyting nýlega þegar samninganefnd LR fór að gera samninga við TR fyrir hönd hvers sérgreinafélags fyrir sig. Haft var samband við stjórn FÍBL með mjög stuttum fyrirvara. Í framhaldi af þessu voru mótaðar kröfur og mynduð kjaranefnd, sbr. að ofan. Sá samningur sem gerður var milli LR og TR fyrir hönd barnalækna felur í sér nokkur nýmæli, helst þau að komið er inn í gjaldskrá álag fyrir skoðun barna yngri en 2 ára og tekið er upp s.k. ráðgjafarviðtal fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða önnur flókin vandamál. Ýmislegt má finna athugavert við gerðan samning sem reyna þarf að lagfæra seinna en vandséð er að hægt hefði verið að ná betri samningi að svo stöddu. Áætlað er að einingafjöldi fyrir hverja komu til barnalæknis hækki samkvæmt þessum samningi úr 24,0 í 26,7 einingar og með hækkun einingaverðs úr 145 í 160 kr. á einingu er krónutöluhækkun þessa samnings metin 22,4%.
Talsverð vinna er framundan við að meta kostnað við stofurekstur barnalækna, taka alla kostnaðarliði með í reikninginn og rökstyðja þau laun sem við viljum fá fyrir vinnu á stofu. Með þessu móti er hægt að leggja fram raunhæfar kröfur í seinni tíma samningaviðræðum. Einnig þarf að afla upplýsinga um launaþróun annarra stétta, samninga annarra sérfræðingahópa o.s.frv. og reyna á allan hátt að tryggja hagsmuni barnalækna að þessu leyti.

 Niðurlag.

Hér hefur verið fjallað um helstu atriði í starfi Félags íslenskra barnalækna á undanförnu ári. Ýmislegt hefur áunnist en mörg verkefni blasa við. Þann árangur sem náðst hefur má fyrst og fremst þakka ötulu starfi félagsmanna, sem hafa tekið því vel þegar leitað hefur verið til þeirra með verkefni. Stjórn Félags íslenskra barnalækna þakkar félagsmönnum samstarfið.

26. mars 1998,
f. h. stjórnar Félags íslenskra barnalækna,

Ólafur Gísli Jónsson, formaður.


Stjórn | Félagatal | Læknar erlendis | Lög félagsins | Skýrslur stjórnar
Fréttabréf Ráðstefnur | Fræðsluefni | Tímarit | Tenglar