Félag íslenskra barnalækna


Skýrsla stjórnar árið 1997.

 

Aðalfundur.

Síðasti aðalfundur var haldinn 15. febrúar 1996. Kosinn var nýr formaður til þriggja ára, Ólafur Gísli Jónsson. Áfram sitja í stjórn Þórólfur Guðnason, ritari, og Katrín Davíðsdóttir, gjaldkeri. Stefáni Hreiðarssyni, fráfarandi formanni, eru þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins. Aðalfundarstörf voru með hefðbundnum hætti, gerð var grein fyrir störfum félagsins árið á undan og reikningar kynntir og samþykktir.

Almennt félagsstarf og fræðslustarfsemi.

Aðeins var haldinn einn hefðbundinn félagsfundur á starfsárinu, 14. nóvember 1996. Var þar rætt um ýmis málefni er varða félagið og félagsmenn og efst voru á baugi á þeim tíma. Gestur fundarins var Bragi Guðbrandsson og flutti hann fyrirlestur um
starfsemi og skipulagningu barnaverndarmála á Íslandi og svaraði fyrirspurnum. Fundinn sóttu 14 félagsmenn.

Á sama fundi sagði Ingibjörg Georgsdóttir frá tveimur fundum, sem hún sat sem fulltrúi FÍBL með gæðaráði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Þar var rætt um gæðastjórnun og gæðatryggingu í heilbrigðismálum og farið yfir stöðuna hér á landi. Einnig var kynnt nýtt tölvuforrit sem fyrirtækið Gagnalind hefur þróað fyrir heilsugæsluna á Íslandi en gæti einnig gagnast sérfræðingum. Ljóst er að frekari umræða þarf að fara fram meðal barnalækna um þessi mál, t. d. um lágmarkskröfur um ytri aðbúnað fyrir börn á lækningastofum og sjúkrahúsum, skilgreiningar á námskröfum, um hugsanlega staðla fyrir greiningu og meðferð, skráningu og flutning upplýsinga o. s. frv. Þessu tengist skipulagning á sérnámi í almennum barnalækningum á Íslandi, sem verið er að vinna að um þessar mundir.

Helsta skýring þess, að félagsfundir voru ekki fleiri, var að félagið átti aðild að ýmsum fundum og ráðstefnum og barnalæknar fyrirlesarar eða þátttakendur í nokkrum fleirum.

Félagið stóð 22. janúar 1997 fyrir málþingi um verki í börnum á fræðsludögum læknafélaganna. Úlfur Agnarsson ræddi um kviðverki, Ólafur Guðmundsson geðlæknir um verki og sállíkamleg einkenni, Pétur Lúðvígsson um höfuðverki og Ólafur Gísli Jónsson og verkjalyf og verkjameðferð. Á fræðsludögum læknafélaganna var einnig málþing um hjartasjúkdóma barna og hjartaaðgerðir í umsjá lækna á Barnaspítala Hringsins, en auk þess fluttu barnalæknar nokkra aðra fyrirlestra á fræðsludögunum.

Hinn 22. og 23. mars 1996 var haldin á Hótel Sögu námsstefna um brjóstagjöf og heilbrigði barna. Meðal fyrirlesara voru Úlfur Agnarsson, Ásgeir Haraldsson, Katrín Davíðsdóttir og Gestur Pálsson.

Félagið tók þátt í að skipuleggja komu Michaels Shannon, barnalæknis frá Children´s Hospital í Boston, hingað til lands 15. apríl 1996. Flutti hann tvo fyrirlestra á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og fjallaði um ný ávana- og fíkniefni og um sérstök vandamál og aukaverkanir sem tengjast meðferð barna, er orðið hafa fyrir eitrun.

Ráðstefna um ungbarnavernd var haldin á Hótel Sögu 18. maí 1996 á vegum læknadeildar Háskóla Íslands í samvinnu við Félag íslenskra barnalækna og Félag íslenskra heimilislækna. Var Ásgeir Haraldsson prófessor aðalhvatamaður þess að ráðstefnan var haldin en stjórn félagsins vann með honum að undirbúningi ásamt Birgi Guðjónssyni frá Félagi íslenskra heimilislækna. Vel var vandað til ráðstefnunnar, m. a. komu tveir erlendir fyrirlesarar, Fiona Shackley frá Englandi og Patrick Olin frá Svíþjóð. Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra setti ráðstefnuna. Fundarstjórar voru Ásgeir Haraldsson og Katrín Fjeldsted. Barnalæknar, sem fluttu erindi, voru Gestur Pálsson, Stefán Hreiðarsson og Sigurveig Sigurðardóttir. Fyrir hádegi var fjallað um ýmis atriði í ungbarnavernd, en eftir hádegi um ný bóluefni. Þátttakendur voru tæplega 100, þ. m. t. hjúkrunarfræðingar úr ungbarnaeftirliti víða að af landinu. Færri heilsugæslulæknar komu en búast hefði mátt við og heyrðust gagnrýnisraddir úr þeirra hópi um að sérfræðingar hefðu verið of áberandi í hópi fyrirlesara á kostnað heilsugæslulækna. Öðrum þótti ráðstefnan takast hið besta og vera þarft framtak.

Hinn 12. og 13. september 1996 var haldin samnorræn ráðstefna um skólalækningar og unglingalækningar. Unnu þær Katrín Davíðsdóttir og Steingerður Sigurbjörnsdóttir mest að skipulagningu fyrir hönd félagsins. Fimm læknar frá Svíþjóð og einn frá Noregi komu hingað og fluttu erindi. Farið var með gestina í skoðunarferðir á barnadeildir sjúkrahúsanna í Reykjavík og ýmsa aðra staði sem tengjast málefnum unglinga. Luku þeir miklu lofsorði á alla framkvæmd ráðstefnunnar. Líklegt er að sams konar norrænar ráðstefnur verði haldnar reglulega áfram og mikilvægt að viðhaldið verði sambandi við norræna barnalækna sem hafa sérhæft sig í þessum málaflokki.

Barnalæknadagurinn var haldinn 15. febrúar 1997 á Hótel Sögu. Í undirbúningsnefnd voru Sveinn Kjartansson, sem var í forsvari, og með honum Kristleifur Kristjánsson og Þórður Þórkelsson. Ólafur Gísli Jónsson, formaður FÍBL, setti ráðstefnuna en síðan flutti Ásgeir Haraldsson prófessor erindi um rannsóknir og þekkingarleit. Kom hann víða við og mæltist vel og var gerður góður rómur að máli hans. Síðan fluttu barnalæknar yfirlitserindi eða kynntu rannsóknir sínar í 12 fyrirlestrum til viðbótar. Um kvöldið var kvöldverður og skemmtun fyrir barnalækna og maka þeirra. Dagurinn var fjölsóttur og kom meiri hluti barnalækna á Reykjavíkursvæðinu en auk þess einn barnalæknir frá Akureyri og nokkrir deildarlæknar af barnadeildum sjúkrahúsanna í Reykjavík. ASTRA Ísland var styrktaraðili barnalæknadagsins.

 Störf stjórnar.

Mestur tími stjórnar á sl. ári hefur farið í málefni ungbarnaverndar. Eins og kunnugt er hafa verið uppi ýmsar hugmyndir um breytt hlutverk Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur eða jafnvel að hún verði lögð niður. Í því sambandi hefur framtíð og skipulagning ungvarnaverndar í Reykjavík verið óljós og auk þess eru fyrirsjáanlegar mannabreytingar á næstunni innan barnadeildar Heilsuverndarstöðvarinnar.

Stjórn FÍBL átti fund með Ingibjörgu Pálmadóttur heilbrigðismálaráðherra 17. apríl 1996 og voru þar ýmis mál rædd. Mest var talað um framtíðarskipulag ungbarnaverndar á Íslandi. Lagði stjórnin áherslu á að barnalæknar væru í forsvari fyrir skipulagningu ungbarnaverndar, að framkvæmd væri samræmd milli heilsugæslustöðva og að áfram yrði til klínísk eining sem gæti séð um ráðgjöf, útgáfu fræðsluefnis, tekið að sér sérstök eða erfið tilfelli og tekið ákvarðanir eða verið ráðgefandi um breytingar á bólusetningum eða um önnur ný viðhorf í þessum málaflokki. Ráherra voru einnig kynntar niðurstöður "framtíðarnefndar" félagsins.

Stjórnin hefur einnig unnið með Ásgeiri Haraldssyni og Halldóri Hansen að málefnum ungbarnaeftirlits. Hefur stjórnin lýst sig samþykka áliti nefndar, sem þeir áttu sæti í og fjallaði um framtíðarskipulag ungbarnaverndar. Þetta nefndarálit er nú til meðferðar í ráðuneytinu. Stjórnin átti 12. mars 1996 fund með Ásgeiri og Árna V. Þórssyni um að hugsanlega mætti tengja stöður barnalækna í ungbarnavernd stöðugildum við barnadeildir spítalanna þótt Ungbarnavernd Íslands yrði í sjálfu sér sjálfstæð eining með barnalækni sem yfirmann.

Formaður og gjaldkeri áttu í október sl. fund með Ragnheiði Haraldsdóttur og Kristjáni Erlendssyni til að kynna enn frekar í ráðuneytinu hugmyndir okkar um framtíð ungbarnaverndar á Íslandi. Sömu aðilar hittust aftur í ráðuneytinu í byrjun febrúar ásamt Ásgeiri Haraldssyni og Gesti Pálssyni til að ræða þetta frekar. Í kjölfar þess fóru Ásgeir Haraldsson, Gestur Pálsson, Hjördís Guðbjörnsdóttir, Katrín Davíðsdóttir og Ólafur Gísli Jónsson á fund ráðherra 14. febrúar 1997. Á fundinum voru einnig Ragnheiður Haraldsdóttir og Kristján Erlendsson. Á minnisblaði frá hópnum, sem ráðherra var afhent á fundinum, er lagt til að ungbarnaeftirlit verði áfram rekið á metnaðarfullan hátt á Íslandi undir merkjum Ungbarnaverndar Íslands. Starfssvið stofnunarinnar yrði skipulagning, samræming og mótun ungbarnaverndar, fræðslu- og útgáfustarfsemi fyrir foreldra og heilbrigðisstarfsfólk ásamt rannsókna- og þróunarstarfi. Ungbarnavernd Íslands taki ákvörðun um framkvæmd ungbarnaverndar, ónæmisaðgerðir, skoðanir og fleira. Jafnframt var lögð þung áhersla á að starfsfólk Ungbarnaverndar Íslands sinnti einnig klínísku starfi samhliða ráðgjöf og fræðslu og gæti sinnt sértækum vandamálum eftir því sem nauðsyn krefði. Þessum hugmyndum virtist vel tekið í ráðuneytinu hver sem útkoman verður en búast má við stefnumótandi ákvörðunum áður en langt um líður.

Á undanförnum árum hefur þótt bera við að landlæknir og embætti hans hafi lítt eða ekki haft samband við Félag íslenskra barnalækna þegar til umfjöllunar hafa verið málefni sem barnalæknar ættu augljóslega að vera umsagnaraðilar um. Var því nokkrum sinnum rætt óformlega við landlækni um ýmis málefni, m. a. til að minna á barnalækna og samtök þeirra. Erfitt er að fullyrða um árangur af þessu en þó hafa félaginu nokkrum sinnum borist orðsendingar frá landlæknisembættinu. Má þar nefna fund um notkun reiðhjólahjálma og samráðsfund um forvarnir í heilsugæslu sem haldinn var í Félagsheimili Seltjarnarness 19. nóvember.

Nýlega var haldinn fundur með umboðsmanni barna um börn og ofbeldi í sjónvarpi. Umboðsmaður hefur áhuga á að gefa út bækling um þetta efni að sænskri fyrirmynd og leitaði til félagsins um samstarf sem nú er hafið. Á fundinum var einnig rætt um ýmis málefni önnur og hugmyndir um samvinnu á öðrum sviðum ræddar. Þá hefur Herdís Storgaard hjá SVFÍ haft samband við félagið um slysavarnir fyrir börn, m. a. um bílbelti og bílstóla og er nú í undirbúningi samstarf á fleiri sviðum.

Aðalfundur Sérfræðingafélags íslenskra lækna (SÍL) var haldinn 16. apríl 1996. Mest var rætt um deilur sérfræðinga og heilsugæslulækna. SÍL lét síðan til sín taka vegna samkomulags Félags íslenskra heilsugæslulækna og heilbrigðisráðuneytisins frá því í júlí. Haldinn var fundur með formönnum sérgreinafélaga 29. júlí og síðan aukaaðalfundur í Læknafélagi Íslands í september.

 Norrænt samstarf.

Stjórnarfundur í Nordisk Pediatrisk Forening (NPF) var haldinn 23. ágúst 1996. Sótti Katrín Davíðsdóttir fundinn af hálfu félagsins og mun hún ásamt Sveini Kjartanssyni skýra nánar frá samstarfi við kollega á Norðurlöndum.

 Kjaramál.

Viðræður standa nú yfir við samninganefnd ríkisins um nýjan kjarasamning lausráðinna sjúkrahússlækna. Ólafur Gísli Jónsson og Sveinn Kjartansson eru fulltrúar barnalækna í stóru samninganefndinni, þótt þeir sér ekki þar beinlínis á vegum félagsins. Segja má að viðræður séu nú í biðstöðu og verður líklega svo þar til samið hefur verið við stærstu hópa launþega. Þá er óvíst hvert framhaldið verður með fyrirkomulag ferliverka á sjúkrahúsum og raunar má segja hið sama um samskipti og samninga við Tryggingastofnun Ríkisins.

Niðurlag.

Hér hefur verið fjallað um helstu atriði í starfi Félags íslenskra barnalækna á undanförnu ári. Eins og sést hafa ýmis mál verið tekin til meðferðar og önnur í deiglunni. Þá hefur verið reynt að minna á að barnalæknar séu sérfræðingar í málefnum barna og búi yfir þekkingu sem geti orðið skjólstæðingum okkar til hagsbóta. Áfram verður unnið á sömu braut og reynt að virkja félagsmenn til góðra verka. Undirritaður vill þakka félögum FÍBL samstarfið, sérstaklega Katrínu Davíðsdóttur og Þórólfi Guðnasyni, sem nú ganga úr stjórn eftir þriggja ára setu og vel unnin störf í þágu félagsins.

20. mars 1997,
f. h. stjórnar Félags íslenskra barnalækna.

Ólafur Gísli Jónsson, formaður.


Stjórn | Félagatal | Læknar erlendis | Lög félagsins | Skýrslur stjórnar
Fréttabréf Ráðstefnur | Fræðsluefni | Tímarit | Tenglar